Gleðilegt sumar!

Stefanía í langstökkiJúlli í sundi

Sumarlegar myndir af yngstu krökkunum.  Stefanía í langstökki og Júlli í skriðsundi.

Nú er sumarið komið! Smile

Ég heyrði í Lóunni í morgun.  Hún var í holtinu fyrir utan eldhúsgluggann minn.  Mér hlýnaði um hjartarætur og gladdi þetta mig mikið.  Alveg frá því ég var lítil stelpa hef ég alltaf tekið eftir því á hverju vori hvenær ég heyri fyrst í henni, þessari elsku sem kemur svo sannarlega með vorboðann.   Gleðilegt sumar til allra sem ég þekki, nær og fjær.


Þankar mínir um...

Fyrr í vetur var mér bent á af einum kennara mínum í kennslufræðinni að kynna mér fræði  Nel Noddings um umhyggju í skólastarfi. Ég fór að glugga í netið og fann þar heilmikið um hana og hennar hugmyndafræði.

Nell Noddings  telur að það vanti meiri umhyggju í menntunarumhverfi barna og unglinga.  Kennarar þurfi að sýna meiri umhyggju og þjálfa nemendur í að sýna einnig það sama.  Hún leggur til breytingar varðandi námsefni og kennslu.  Hún vill að fjallað verði um námsefni út frá siðferðilegu sjónarhorni og að kennsla og námsefni sé jafnréttismiðuð.  Kennsluaðferðir verði endurskoðaðar í ljósi umhyggjukennslu.  Einnig vill hún að skólamenning og áherslur í skólastarfi verði endurskoðaðar og mótaðar að nýju í anda umhyggjukennslu.

Það er hægt að velta fyrir sér hvort kulnun verði frekar í starfi ef stöðugt er verið að gefa af sér.  Sjálfsagt getur það orðið ég efa það ekki.  Einnig er spurning hvort verið sé að höfða til kvenna, þar sem kennarastéttin er jú frekar “kvennastétt".

En ég tók strax jákvæða afstöðu gagnvart þessari hugmyndafræði.  Af hverju getum við ekki öll verið góð við hvort annað og borið umhyggju fyrir hvoru öðru?  Það sem mér finnst orðið vanta í samfélag okkar er að láta sig varða um náungann.  Við getum ekki fyrrað okkur ábyrgð og sagt, þessi og hinn á að sjá um þetta og þar fram eftir götum.  Við berum öll ábyrgð.

Fjölgreindir

 Fjölgreindakenning Gardners höfðar mjög sterkt til mín og ætla ég að kynna mér hana nánar en ég hef gert í vetur og nýta mér hana í minni kennslu í framtíðinni.  Fyrir mér er þetta eitthvað svo rökrétt, tala nú ekki um hvað þetta er mannúðleg kenning að mínu mati.  Einstaklingurinn er metinn að verðleikum, reynt að styrkja hann en frekar á sínum sterku sviðum greindar og viðurkenna að allar eru þær jafnmikilvægar.  Nemendur hljóta að fá sterkari sjálfsmynd fyrir bragðið.  En ennþá metum við bóknámsgreinar ofar en t.d. verkgreinar og listgreinar, því miður.  Við tökum ekki samræmt próf í smíðum, teikningu, tónlist.  Hvernig komum við viðhorfsbreytingum til leiðar inn í skólakerfið?

Ég held að skólafólk og aðrir séu að sjá ávinninginn í þessu og skólinn er stöðugt að leitast við að koma til móts við misjafnar greindir nemenda.

Gaman er að skoða börnin sín í ljósi fjölgreindakenningarinnar. Þau eru öll sterkari á ákveðnum sviðum greindar og lakari á öðrum.  Kannski er þetta ekkert nýtt fyrirbrigði því oft hefur verið var að talað um og undrast að börn sem væru frábær að teikna en ættu erfitt með bóknám og aðrir sem væru rosalega góðir í öllum íþróttum en áttu erfitt með skrift.  Svo nú er loksins búið að setja þetta í orð og síðan setja fram sem kenningu.  Frábært.


Aðalnámskrá - Framhaldsskóla

Við lestur aðalnámskrár verður fljótlega ljóst að mjög ýtarlega er skilgreint hvernig framhaldsskólinn á að starfa.  Í henni er að finna útfærslu á mennta- og skólastefnu sem birtist í lögum nr. 80/1996 um framhaldsskóla.  Þar er lýst þeim starfsramma sem skólastarfinu er settur með lögum og reglugerðum. Aðalnámskrá er stjórntæki fræðsluyfirvalda, afmarkar starfsramma stjórnenda , veitir upplýsingar um menntastefnu stjórnvalda og er viðmið um starfsemi skóla fyrir kennara, nemendur og forráðamenn.  Aðalnámskrá setur fram meginmarkmið framhaldsskóla, skilgreinir markmið einstakra námsbrauta, námsgreina og námslok.  Hún gerir einnig grein fyrir inntökuskilyrðum fyrir einstakar námsbrautir, réttindum og skyldum nemenda, námsmati, prófum og undanþágur frá námi í einstökum greinum og viðbótarnámi. Meginhugmynd aðalnámskrár  er að framhaldsskólinn sé fyrir alla og ber að gæta jafnréttis og bjóða kennslu við hæfi hvers og eins.  Viðfangsefni þurfa að höfða bæði til pilta og stúlkna án tillits til uppruna, búsetu og fötlunar.  Sérstaklega er tekið fram að leitast skuli við að gera fötluðum nemendum, langveikum og þeim sem eiga við námsörðugleika að etja kleift að stunda nám.. Nemendur af erlendum uppruna fá líka pláss í námskránni þar sem kveðið er á um öfluga íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt samfélag og menningu svo og annari aðstoð eftir mætti. 
Uppbygging náms og námsleiðir eru vel skilgreindar í aðalnámskrá.  Boðið skal upp á fjölbreyttar leiðir í framhaldskólunum í bóknámi, starfsnámi og listnámi. Almenn námsbraut er í skólunum sem kemur  á móts við nemendur sem lokið hafa grunnskólaprófi en ekki tilskyldum skilyrðum til inngöngu á lengri námsbrautir ,með öðrum orðum, náðu ekki samræmdu prófunum.   Ég tók eftir að í  náttúrufræðigreinum sem er mín námsgrein í kennslufræði er einungis skilgreind 21 eining í kjarna, af 98, ef ég skil þetta rétt.  Það er frekar lítið meðan tungumál eru með 27 einingar í kjarna  á málabraut. Nokkuð ítarlegur kafli er um skólanámskrá þar sem hver skóli skal setja fram sína stefnu og starfsáætlun.  Hún á að lýsa sérstöðu og sérkennum hvers skóla t.d. að FÁ er meðHeilbrigðisskóla, MK er með Hótel- og veitingaskóla.  Því hlýtur skólanámskrá þessara skóla að vera ólík. Sérstakur kafli er um mat á skólastarfi.  Með mati á skólastarfi finnst mér koma fram ákveðin metnaður skólanna til að gera betur.  Mat á skólastarfi  hlýtur að vera mikilvægt fyrir hvern skóla og gefur tækifæri til frekari þróunar, bæta það sem aflaga hefur farið og festa í sessi og efla  það sem vel er gert.Námskráin er þannig úr garði gerð að hún geti svarað nær öllu varðandi nám og kennslu, bara fletta upp og þú finnur það.  Hún er svo ýtarleg að mér dettur ekkert í hug sem vantar.  Sjálfsagt er það reynsluleysi mitt og ekki næg þekking á framhaldsskólanum.  En  spurning er hvort hægt sé að framkvæma allt sem sett er fram í henni?.  Við lesturinn læðist að manni sá grunur að við gerð aðalnámskrár hafi stefnan verið að koma á samræmdum prófum fyrir framhaldsskóla.  Þessi nákvæmi rammi sem kemur fram í aðalnámskrá skilur eftir lítið svigrúm til “frelsis” fyrir skólastjórnendur og kennara.  En eigi að síður hafa skólar ákveðið svigrúm með sinni eigin skólanámskrá.

Meginhugmyndin um nám og kennslu í aðalnámskrá er að framhaldsskólinn sé fyrir alla eins og ég hef sagt hér fyrr.  Allir eiga að geta fundið þar eitthvað við sitt hæfi án tillits til þátta eins og fötlunar, námsörðugleika, búsetu og uppruna.  En samt vitum við að valið er í skólanna.  Í orðalagi námskrárinnar er svigrúm til túlkunar t.d  “eftir því sem tök eru á”  og  “eftir mætti”.  Minn skilningur er því, að það er á valdi skólanna að velja inn í skólanna þar sem þeir eru alveg að fylgja ramma aðalnámskrár.  Ég komst að því í kynningu á einum framhaldsskóla hér í bæ, að skólum væri úthlutað fjármagni eftir því hve mörgum einingum nemendur ljúka. Þannig geta 10 nemendur verið skráðir í áfanga en einungis 5 taka prófið og ná því, þá er einungis greitt fyrir þessa fimm.   Þetta kom mér verulega á óvart, því þetta ýtir en undir að skólar velji nemendur sem eru líklegri til að haldast í námi og útskrifast á “réttum tíma” og nemendur sem eru ekki líklegir til að falla úr skóla.  En þá eru ekki allir framhaldsskólar fyrir allar

 

Er ég sammála áherslum í Aðalanámskrá - Náttúrufræði

 

Er ég sammála áherslum í Aðalnámskrá - náttúrufræði

Ég byrjaði á því að lesa yfir Aðalnámskrá grunnskólans - náttúrufræði.  Það gerði ég af því mér finnst ég þekkja meira til grunnskólans en framhaldsskólans.  Þó svo ég hafi útskrifast á náttúrufræðibraut á sínum tíma, þá er svo langt um liðið.Þegar ég las yfir formála, inngang og næstu kafla á eftir í Aðalnámskrá grunnskólans þá fannst mér textinn alltof langur,  ég týndist hreinlega í honum.  Ég varð að byrja aftur og einbeita mér betur. Aðalatriðin verða að vera  aðgengilegri og uppsetning skipulagðari.   Þetta er nú sjálfsagt ekki vettvangurinn til að gangrýna Aðalnámskrá en til þess að éggeti nýtt mér hana, þarf hún að vera aðgengileg til aflestrar.

Markmið eru sett fram í þremur flokkum þ.e. lokamarkmið, áfangamarkmið og þrepamarkmið. 

Strax í formála kemur fram að ólíkir einstaklinga eiga að fá viðfangsefni eftir því sem þroski, hæfni og áhugamál leyfa.   Inngangurinn er fræðilegur og rökstyður mikilvægi kennslu í  náttúruvísindum og hve veigamikill þáttur náttúruvísindin eru í þroska og menntun barna og unglinga.  Sérstaða Íslands er dreginn fram, við búum á einstöku landi þar sem óteljandi tækifæri eru  til athugana og rannsókna.  Ég er sammála þessu öllu og var sérstaklega ánægð með að sérstaða landsins skuli vera dregin fram.  En einnig er  talað um íslendinga sem hluta af samfélagi þjóða og þeir beri ábyrgð sem slíkir. Mjög gott. 

Náttúruvísindin er flokkuð niður í eðlisvísindi, jarðvísindi og lífvísindi.  Markmið og viðfangsefni eru valin þannig að þau hafi nærtæka þýðingu fyrir nemandann og nálgun efnis vísar til íslensks lífríkis og íslenskrar náttúru sem ég tel að sé mjög gott.  Nemendur skilja og skynja  betur ef tenging er við það sem þau þekkja. 

Ég þekki best til lífvísindanna þá sérstaklega mannslíkamans, því skoðaði ég það sérstaklega.  Mér finnst ég ekki hafa næga þekkingu á eðlis- og jarðvísindum til að átta mig á áherslum þar. 

Í lokamarkmiðum kemur m.a. fram að "nemandi þroski með sér lífsýn sem byggist á sjálfskoðun og skilningi á heilbrigði eigin líkama og eigin ábyrgð innan samfélagsins".  Ég get verið sammála þessu markmiði og sérstaklega  að höfðað er til ábyrgðar einstaklingsins.

En þegar ég skoða síðan náttúrufræði í 8 - 10 bekk, þá er rétt minnst á heilsu og lífstíl sem dæmi um þemaverkefni.  Ekki er það nú mikið.

Í áfangamarkmiðum í lok 10. bekkjar er eitt markmið sem tengist mannslíkamanum. Það er að nemandi á að geta tekið ábyrga afstöðu í kynferðismálum og þekkja helstu kynsjúkdóma.  Frekari úfærsla er síðan fyrir neðan.

Einnig er markmið varðandi sjúkdóma sem geta verið af mismunandi orsökum.  Þetta finnst mér allt of sjúkdómsmiðað. 

Ég vil frekar tala um kynheilbrigði heldur en kynferðismál, enda kemur orðið "heilbrigði" fram í lokamarkmiði sem ég nefndi hér fyrr.  Mín skoðun er að leggja eigi meiri áherslu á að efla heilbrigði einstaklingsins, líkamlega, andlega og félagslega.  Hvernig förum við að því? 

Heilbrigði kemur inn á svo marga þætti, hollustu, hreyfingu, hamingju, hreinlæti, svefn, slysavarnir og svo mætti lengi telja, ég sé alla þessa þætti á einhvern hátta flokkast undir náttúruvísindi.  Hollusta og efnafræði, hreyfing og líffærafræði, hamingja og lífeðlisfræði, slysavarnir og eðlisfræði.  Að sjálfsögðu skarast þessir þættir við önnur vísindi einsog t.d. samfélagsgreinar. Áfangamarkmið eru  nákvæmlega útfærð, mér finnst þetta alltof mikil teskeiðarmötun og spyr mig hvort þetta sé virkilega nauðsynlegt, verið er að stoppa í öll göt!

Varðandi Aðalanámskrá framhaldsskólans  þá finnst mér hún mun aðgengilegri til aflestrar en Aðalanámskrá grunnskólans.  Inngangurinn er nær sá sami og í grunnskólakaflanum,  er ég sammála aðaláherslum einsog áður segir en við bætist aukin sérhæfing til að mæta kröfum um frekara nám á háskólastigi eða í sérskólum.  Þetta er að sjálfsögðu eðlileg þróun þegar komið er í framhaldsskóla. 

Í báðum námskrám er lögð áhersla á útikennslu í náttúruvísindum, tækifærin í kennslu eru  fyrir utan kennslustofuna.  Sjálfsagt ættu kennarar að nýta sér það í mun meira mæli.  Ég man helst eftir þeim kennslutímum sem fóru fram utan skólans á minni skólagöngu.  En þær voru ekki margar.  Læra með því að framkvæma er einhverstaðar sagt.

Í báðum námskránum er fjallað um notkun upplýsinga -og samskiptatækni  í skólastarfi, nú eru tækifærin á því sviði nær óþrjótandi og huga þarf sjálfsagt að því að kenna nemendum að meta gæði þeirra upplýsinga sem þau geta aflað sér á netinu.

Lögð er  áhersla á notkun námsefnis á erlendum málum í framhaldsskólunum sem ég tel góðan undirbúning fyrir frekara  framhaldsnám.

Að endingu vil ég taka upp nokkur orð, sem koma fram í lokamarkmiðum í námskrá framhaldsskólans sem mér finnst eiga vel  við hér,  en það er orðin,   þekking - færni -

reynsla - skilningur - ábyrgð og  röklegt samhengi . 


Verkefni, ritgerðir, umræður, pælingar...

Nú eru verkefnin í algleymi í náminu.  Mér finnst ég stundum eiga allt eftir, hvernig á ég að ná yfir þetta allt saman?  Ég er í uppeldis - kennslufræði í HÍ, er að læra "allt" um það að kenna öðrum!!!

Og finnst þetta reyndar ótrúlega skemmtilegt.   Smile

En allir vilja kennararnir að við skilum verkefnum, ritgerðum, úttektum, umræðum, pælingum, lesum greinar, skoðum áhugaverðar vefslóðir.... og lærum heima að sjálfsögðu.

Maður "kýlir á þetta og reynir að halda í við þetta allt saman, alveg sveittur, ég er hætt að fara í ræktina, fólkið mitt fær bara skyr og brauð.  

Svo ég spyr mig hvort þetta sé kennslufræðin, engin spáir í hvað hinn er að gera, lærum við mest á þessu?   Oft á tíðum er þetta svo mikið að maður hættir að njóta sín í náminu, hugsar bara um að klára öll verkefnin.  Er þetta bara væl í mér?  Blush

En ég vil nú reyndar segja það að ég er mjög feginn að fara ekki í nema eitt próf, finnst mér það skila mér meiru að gera verkefni.  Ég læri meira á því, það má bara ekki fara úr böndunum.

Hver er lausnin?  Jú,  þú verður að skipuleggja þig betur.  Ég held ég verði að gera það!!!


Hugleiðingar um bloggið

Ég er nú ekki dugleg að blogga.  Var búin að skrifa þó nokkurn texta hér rétt áðan og einhvern veginn tókst mér að missa hann út.

En dætur mínar eru í námi erlendis og nnur þeirra heldur úti bloggsíðu.  Ég fer oft inn á hana til að fylgjast með,  mér finnst þær ekki eins langt í burtu,  en tenglar eru inn á vini þeirra, marga þeirra þekki ég nokkuð vel.  Ég hef verið feiminn við að fara inn á þeirra síður, hef hugsað er þetta ekki ákveðin hnýsni?  Eða er þetta umhyggja, hvað er að frétta af henni Siggu minni er ekki allt gott hjá henni?  Þetta eru jú opnar síður. 

En sumir nota bloggið til að tjá sig um tilfinningar sínar og líðan í rituðu máli.  Þetta er ákveðin leið til sjálfshjálpar, fólk fær viðbrögð og stuðning.  Ef bloggið getur hjálpa einstaklingnum á þennan hátt finnst mér það gott.  Þó bloggið henti mér ekki til þess


Ármúlinn

Var í Ármúlanum í morgun, fengum góðan fyrirlestur um hvernig skólinn styður við nýbúakennslu í skólanum.

Þar er gott stuðningskerfi greinilega, til að aðstoða þau í námi.  Boðið er t.d. upp á fasta tíma við heimanám í stærðfræði, íslensku og spænsku.   Þeirra reynsla er ekki sú að mikið brottfall sé hjá þessum nemendahóp og er það ánægjulegt að vita það.  Ég er alltaf að sjá betur og betur að Ármúlaskólinn er fyrir "ALLA". 


Lesblinda

Ég hlustaði á mjög áhugaverðan fyrirlestur í Ármúlanum í morgun um lesblindu.  Ég taldi mig nú vita ýmislegt um lesblindu en komst að því að ég vissi ósköp lítið.  Mjög fróðlegt fyrir kennaranema að hlusta á þennan fyrirlestur og er ég í raun hissa að ekki sé fyrirlestur um lesblindu í kennslufræðinni.

Ýmis praktísk atriði komu þarna fram sem maður hafði ekki hugmynd um að skiptu máli í kennslu.

Til dæmis skiptir leturgerðin máli í textagerð til nemenda,  en það er Ariel, mjóir stafir, vissuð þið þetta?  Litir á blöðum skipta máli, stærð stafa og margt fleira sem koma þarna fram.

Ég var í síðasta áheyrnartímanum mínum í dag í Ármúlanum.  En það er búið að vera ánægjulegt að fá að vera í Ármúlanum og er til fyrirmyndar hvernig staðið er að vettvangsnáminu þar.  Og hlakka ég til að vera þar aftur eftir áramót. Brosandi

 


Nú er úti veður vott

 

Nú blæs vindur úti og hann hellir úr sér regninu.

Ég elska svona veður.   Kveikja á kertum. spila góða tónlist, fá sér gott kaffi og hjúfra sig undir teppi og lesa góða bók, ég mæli með Pride and Predjudice, eftir Jane Austin.

Ég sendi einusinni póstkort út til systur minnar sem bjó þá erlendis.  Myndin var af eyðibýli á útskaga hér á landi, maður fann fyrir veðrinu á myndinni, brimið frussandi við klettaströnd, drunginn og brjálæðið í skýjafarinu var ólýsanlegt.

Hún sagði við mig seinna hún hefði fengið þvílíka heimþrá við að fá þetta kort, hún hefði fundið regndropann smella á hljóðhimnunni. Við íslendingar söknum kannski veðurfarsins að einhverjuleiti þegar við erum fjarri heimahögunum, eða hvað?

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband